Spurt og svarað

ER ÞETTA ÍSLENSK FRAMLEIÐSLA?
Já, þetta er íslensk framleiðsla og hönnun. Að sjálfsögðu eru plastprófílarnir fluttir inn til Íslands, jafnt og hver spíta eða nagli sem notaður er á Íslandi. Á Íslandi er erfitt að kalla eitthvað alíslenskt nema kannski sauðkindina. Öll framleiðslan fer fram á Íslandi með íslensku hugviti, íslenskri hönnun og íslensku verkviti. Meira íslenskt getur framleiðsla á Íslandi varla orðið.

HVERSU NÁKVÆM MÁL ÞARF AÐ TAKA?
Til að viðkomandi hlutur passi nákvæmlega í glugga eða hurðargatið, eða sólskálinn niður á steypta plötuna, er mjög nauðsynlegt að vera nákvæmur í máltöku. Ef viðskiptavinurinn er búsettur á höfuðborgarsvæðinu, komum við á staðinn og tökum málin. Ef viðskiptavinurinn er búsettur úti á landi þá vísum við gjarnan á þá aðila sem við höfum átt í samstarfi við. Ef þess er ekki kostur, reynum við að vera viðskiptavinum okkar eins mikið innan handar og mögulegt er.

ER ÞETTA UMHVERFISVÆNT?
PVC prófílarnir sem við notum í okkar framleiðslu eru frá þýska fyrirtækinu Profine-Kömmerling, sem er það stærsta í heimi, á sínu sviði. Þetta eru einu PVC prófílarnir þar sem blý kemur hvergi við sögu framleiðslunnar. Efnið er algerlega endurvinnanlegt. Kömmerling tekur við öllum afgöngum og þessháttar til endurvinnslu.
Ending er hinsvegar ekki alveg á hreinu, þessi framleiðsla hófst fyrir 42 árum og er það efni enn í fullu gildi. Ending er því a.m.k. 50 ár eða svo. Þegar / ef þessir gluggar verða einhverntíma teknir úr, verður PVC efnið sent til endurvinnslu.
Sjá frekar á heimasíðu Kömmerling þar sem hægt er að skoða það mikla úrval og miklu breydd sem framleiddir eru úr PVC prófílum. Síðan er á dönsku.
Einnig má benda á síðu Profine group, en Kömmerling er eitt af vörumerkjum þess. Þar má lesa um gluggaefni framtíðarinnar og um endurnýtingu og hversu umhverfisvænt fyrirtækið er. Síðan er á ensku.

HVAÐ ER PVC
PVC er plast. Öll plastefni eru í raun flóki af risalöngum fjölliðukeðjum sem er líkastur hrúgu af soðnu spaghettíi. Hver fjölliðukeðja er mynduð úr raðtengdum atómum, oft 10-100 þúsundum þeirra, líkt og perlur í perlufesti. Langoftast eru það kolefnisatóm sem eru raðtengd en súrefnis- og nituratóm eru einnig í raðtengingunni í sumum gerðum fjölliðukeðja (t.d. í pólýester- og nælon- plastefnum). Ef við ímyndum okkur að hvert atóm í fjölliðukeðju sé á stærð við piparkorn þá væri lengd keðjunnar nokkrir tugir metrar.

Hrúga af slíkum keðjum mynda því margbrotinn flóka sem getur verið misgljúpur allt eftir því hver gerð fjölliðukeðjanna er og sérstaklega því hvort keðjurnar myndi greinar. Súrefni er hins vegar samsett úr litlum tvíatóma sameindum, O2, og væru sameindirnar þá á stærð við piparkornin í samlíkingunni hér á undan. Auðvelt er því að sjá fyrir sér hvernig litlar O2-sameindir geti smogið á milli fjölliðukeðjanna líkt og piparkorn færu gegnum spaghettihrúgu. Þetta er aðalástæða þess að súrefnisameindir og aðrar litlar gassameindir eins og nitur (N2) og koltvíoxíð (CO2 fara auðveldlega í gegnum mörg plastefni.

Í öðrum efnum eins og til dæmis málmum raðast atómin mun þéttar saman eða líkt og piparkorn í kryddbauk. Lítið rými er þá á milli málmatómanna og súrefnisameindir geta ekki farið þar um – að hrista baukinn jafngildir því að bræða málminn. Frá þessu sjónarmiði er því vandalaust að búa til loftþéttar umbúðir úr málmi eins og til dæmis áli, þó að það sé kannski tæknilega erfiðara af öðrum ástæðum.

Upplýsingar fengnar af Vísindavef HÍ

ER HÆGT AÐ FÁ EINHVERN ANNAN LIT EN HVÍTT?
Já það er hægt að panta inn annnan lit í stærri verk. Við erum með fjölbreytt litakort og getum við sérpantað inn þann lit sem viðskiptavinurinn óskar eftir. Það tekur lengri tíma að fá vöruna afhenda og verðið getur verið 15 % hærra en hvíti klassíski liturinn okkar.

ER HÆGT AÐ SENDA TEIKNINGAR Í TÖLVUPÓSTI?
Já það er ekkert mál að senda okkur teikningar í tölvupósti. Póstfangið er solskalar@solskalar.is. Best þykir okkur að fá teikningar á .PDF formi

HVAÐ ÞARF AÐ KOMA MEÐ TIL AÐ FÁ FÁ TILBOÐ?
Nægilegt er að koma með skissur af óskum þínum og gróf mál. Sérstaklega ef verið er að ræða um eina hurð eða glugga. Ef verkin eru orðin stærri, eins og gluggar í heilt hús er nauðsynlegt að koma teikningum til okkar.

Ef um er að ræða sólskála, er mjög gott að fá teikningar af húsinu, í núverandi mynd og eða ljósmyndir. Að ógleymdum þínum óskum.

KOSTAR AÐ FÁ TILBOÐ?
Nei, það kostar ekki neitt að fá tilboð hjá okkur. Finnst okkur þetta vera sjálfsögð þjónusta við viðskiptavini okkar.

HVERSU LANGUR ER AFGREIÐSLUFRESTUR?
Afgreiðslufrestur á framleiðslu okkar er misjafn eftir verkum, árstíma og er áætlaður og getur tekið breytingum.  Hafið samband til að fá nánari upplýsingar. 

ÞARF AÐ FÁ LEYFI FRÁ BYGGINGAFULLTRÚA?
Já það þarf að fá leyfi frá byggingarfulltrúa í viðkomandi byggðalagi ef þú ætlar að byggja sólskála, loka svölunum hjá þér eða byggja nýtt anddyri.
Mismunandi kröfur, vinnureglur og starfshættir eru í byggðarlögunum og er best að hafa samband við sitt byggðarlag og fá allar upplýsingar frá þeim um framkvæmdaferil áður en ráðist er út í stærri framkvæmdir.